,,Fyrr í vor, þegar við vissum ekki hvernig yrði með samkomubann og tveggja metra nándartakmörkin um hvítasunnu ákváðum við að færa helgihaldið út í Guðs græna náttúruna til að tryggja að við gætum alveg örugglega messað á þessari stóru hátíð“ segir Sigríður Rún Tryggvadóttir, prestur á Seyðisfirði
Veðrið var með besta móti, logn og bjart. Hist var við útikennslustofuna fyrir ofan Múlaveg og gengið inn að Fjarðarseli, þar sem messukaffið var drukkið.
Gangan var ferðalag inná við, markmiðið var að tengja upp og að íhuga verk heilags anda. En óvíða er eins auðvelt að finna fyrir nærveru Guðs og úti í náttúrunni.
Á leiðinni var áð á nokkrum stöðum þar sem lesnir voru ritningalestrar, kórinn leiddi sálmasöng og næstu íhugunarstef lögð inn.
Þetta er annað árið sem efnt er til göngumessu í samstarfi við Gönguklúbb Seyðisfjarðar og Heilsueflandi samfélag og er því orðin hefð.
Til gamans má geta þess að þau yngstu sem gengu með okkur voru þriggja ára og sá elsti var rúmlega áttræður. Nokkuð ljóst er því að göngumessur henta fólki á öllum aldri og eru þessi orð því hvatning til allra fyrir næstu göngumessu.