Hefur þú tekið eftir rauðgyllta litnum lauma sér inn á milli jólaljósanna og lýsa upp kirkjuna í bænum þínum? Það er vegna þess að í
16 daga í nóvember og desember viljum við beina athygli okkar að kynbundnu ofbeldi í öllum þess myndum og baráttunni gegn því.
Út um allan heim eru fjöldamörg samtök sem taka þátt í þessu átaki, sem stendur frá 25. nóvember sem er alþjóðadagur gegn ofbeldi gegn konum, til 10. desember en þá er mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna. Með því að tengja þessa tvo daga er kastljósinu beint að því að frelsi frá hvers konar ofbeldi og þvingunum eru grundvallar mannréttindi allra.
Hér á Austurlandi eru það Soroptimistar sem halda uppi merkjum átaksins, m.a. með því að hvetja opinbera aðila til að roðagylla byggingar sínar og það verður gert í hverju sveitarfélagi. Það eru líka veggspjöld sem hanga uppi á ýmsum stöðum og vekja athygli á átakinu.
Kirkjur og söfnuðir víða um heim eru líka hvött til að setja málefnið á dagskrá og gera það með ýmsum hætti. Á heimasíðu Lútherska heimssambandsins, sem þjóðkirkjan er aðili að, (lutheranworld.org) eru nákvæmar upplýsingar um aðgerðir og hugmyndir sem allir geta nýtt sér í þágu átaksins.
Í ár höldum við 16 daga átakið í skugga COVID-19 heimsfaraldursins. Því miður hefur faraldurinn skapað aðstæður þar sem kynbundið ofbeldi nær sér frekar á strik, á innilokuðum heimilum, í kjölfar aðþrengds efnahags og röskunar á vinnu og skólastarfi. Einu sinni þögðum við um ofbeldi á heimilum, nú er það talið ein helsta birtingarmynd kynbundins ofbeldis.
Biblían er full af áköllum þeirra sem líða og þjást vegna ranglætis og ofbeldis. Hér er bæn úr Davíðssálmunum sem er hægt að lesa saman og nota þegar við leggjum aðstæður þeirra sem þjást í hendur Guðs.
Einn getur tekið að sér að lesa þar sem stendur L, og hin svarað þar sem stendur S.
L. Hve lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu?
Hve lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?
S. Hve lengi, Drottinn?
L. Hve lengi á ég að hafa beyg í brjósti,
sorg í hjarta dag frá degi?
Hve lengi á fjandmaður minn að hrósa sigri yfir mér?
S. Hve lengi, Drottinn?
L. Lít til mín, svara mér, Drottinn, Guð minn.
Tendra ljós augna minna
svo að ég sofni ekki svefni dauðans
S. Lít til mín, svara mér, Drottin?
L. Og fjandmaður minn geti ekki sagt: „Ég hef sigrast á honum,“
og óvinir mínir fagni ekki yfir því að mér skrikaði fótur.
S. Lít til mín, svara mér, Drottinn, svo ég megi rísa upp gagnvart þeim sem lætur mig hrasa.
(Úr Davíðssálmi 13.1-4)
Við tökum höndum saman við Soroptimistana á Austurlandi og öll þau sem leggja lið átakinu gegn kynbundnu ofbeldi. Roðagyllum kirkjuna okkar.
Kirkjurnar í Egilsstaðaprestakalli
(Hér er að finna nokkrar grunn staðreyndir um kynbundið ofbeldi, sem eru settar fram með skýrum og myndrænum hætti: