Veðrið leikur við okkur, sólin skín en það eru blikur á lofti. Við þurfum að fara varlega á sama tíma og okkur langar að hitta ættingja, vini, borða saman og njóta páskanna.
Flest tengjum við skírdag líklega við síðustu kvöldmáltíð Jesú og lærisveinanna. Þess minnumst við er við göngum til altaris og horfum til fórnarinnar á krossinum. Þar er Jesús raunverulega nálægur og við hljótum fyrirgefningu syndanna, líf og sáluhjálp.
Skírdagur dregur nafn sitt af því þegar Jesús þvoði fætur lærisveinanna, en orðið skír merkir e-ð hreint, bjart og saklaust. Á kveðjustund fyrir föstudaginn langa, þvoði Jesús fætur lærisveina sinna og sýndi þannig í auðmýkt fram á kærleika sinn.
Á árum áður á Íslandi var gengið milli staða, fótabúnaði fólksins þá er ekki hægt að líkja við gönguskó nútímans. Hugsið ykkur þjónustuna og kærleikann þegar einhver bauðst til að taka þreyttan ferðalanginn úr blautum skóm og sokkum og lauga fæturnar í volgu vatni.
Íslenskur raunveruleiki minnir á frásögnina af fótaþvotti Jesú. Því á tímum Jesú var fótabúnaðurinn og göturnar þannig að ryk og mold settist gjarnan á fæturna, það var hlutverk þjóna að þvo fætur gesta fyrir samkomur.
Jesús fór gegn hefðbundnum venjum er hann þvoði fætur gesta sinna sem þjónn. Þannig ítrekaði hann að koma hans í heiminn var til að þjóna öðrum og gefa líf sitt.
Fótaþvotturinn er því ekki einungis kærleiksrík athöfn, hún vísar til þess að við þiggjum gjöf Jesú, ferðalagið með honum stendur okkur til boða. Þegar við erum í miðjum faraldri minnir fótaþvotturinn okkur kannski á hreinlæti og spritt en aðallega hvernig lítil falleg hugsun eða verk getur tjáð kærleika og þjónustu við samfélagið en til þess erum við kölluð í trúnni á Krist.
Megi birta páskanna skína í hjörtum okkar allra og eilífur Guð blessa okkur þá dýrmætu von sem við eigum í upprisunni og kærleika Krists, í frelsarans Jesú nafni. Amen.