Kyrrðardagur í Kirkjumiðstöðinni við Eiðavatn laugardaginn 9. nóvember 2024

Austurlandsprófastsdæmi býður upp á kyrrðardag í Kirkjumiðstöðinni við Eiðavatn laugardaginn 9. nóvember kl. 10-16. Boðið er upp á létta máltíð í hádeginu og kaffihressingu fyrir brottför.

Slíkur kyrrðardagur gefur tækifæri til að róa huga og hjarta og njóta þagnar með öðrum og leita inn á við þar sem Guð umlykur lífið með kærleika. Kyrrlát útivist í fögru umhverfi hefur einnig margvísleg uppbyggileg áhrif.

Leiðbeinendur eru hjónin Ástríður Kristinsdóttir og sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson.

Þátttakendur þurfa ekki að greiða neitt.

Skráning og upplýsingar á addykrist@gmail.com eða vigfus50@gmail.com eða í síma 863 6866.

Kristin íhugun/hugleiðsla – meira um margbrotið málefni:

Mismunandi hugtakanotkun á þessu sviði getur valdið nokkrum ruglingi. Fólk í ýmsum hópum leggur mismunandi merkingu í orð eins og t.d. „íhugun“

(meditation) eða hugleiðsla (contemplation, ásæi). Í þýðingum úr trúarlegum hefðum fjarlægari Austurlanda er orðið íhugunun oft látið merkja einhvers konar viðleitni til að tæma hugann af hugsunum en tæming hugans er ekki markmið í kristinni hugleiðslu.

Samkvæmt sígildri kristinni hefð felst íhugun í að dvelja í kyrrð við ígrundun á einhverju (kristilegu) efni en hugleiðslan er fremur að dvelja í þögn og rósemd í vakandi vitund um eða leit eftir návist Guðs (sjá „Hvað er íhugun?“ tímaritið Bjarmi, 1. tbl. 2017 – einnig: amen.is).

Kristin íhugun gengur út frá einhverju kristilegu efni eða viðmiði, gjarnan einhverri frásögn af Jesú Kristi, orðum hans eða athöfnum t.d. dæmisögu. Íhugunarefnin eru almennt stutt og oft fremur einföld. Markmiðið er ekki vitsmunaleg fræðsla heldur má segja að íhugunin snúist fremur um að ná þekkingu úr höfðinu niður í hjartað.

Í stuttum texta er oft dvalið við enn afmarkaðra efni í hugskoti hvers og eins. Eitthvað sem snertir viðkomandi á þeirri stundu. Í gömlum klaustrahefðum var talað um að „jórtra“ á efninu.

Kristin íhugun getur leiðst yfir í hugleiðslu sem sleppir íhugun á tilteknu efni en hvílt er í vitund um að vera í návist Guðs. Almennara er samt að kristin íhugun leiði til persónulegs samtals við Jesú – bænar og lofgjörðar.

Í sögu kristninnar er að finna mikla arfleifð á þessu sviði sem tiltölulega fáir þekkja mikið til (jafnvel guðfræðingar) þó að nóg sé til af bókum um þessi efni.

Hérlendis má vísa til Kyrrðarbænarsamtakanna sem eru hluti af alþjóðlegri hreyfingu (Contemplative Outreach) – www.kyrrdarbaen.is. Þessi samtök leggja áherslu á kyrrðarbænina sem er einföld nútímaútgáfa af tiltekinni iðkun frá miðöldum. Kyrrðarbænin verður m.a. á dagskrá á Eiðum (sjá https://www.youtube.com/watch?v=NVjw07zUCZk).

Kyrrðarbænasamtökin byggja mikið á amerískum samböndum sem lengra aftur má rekja til svonefndrar Carmelhefðar og 16. aldar Spánverjanna Teresu af Avila og Jóhannesar af Krossi. Segja má að hugleiðslan sé í fyrirrúmi í þessari hefð (þrátt fyrir hugtakið „íhugun“) sbr. bækur eftir Thomas Keating: Vakandi hugur – vökult hjarta og Leiðin heim – Vegur kristinnar íhugunar.

Einnig er að nokkru leyti um aðra hefð að ræða hérlendis sem byggir á evrópskum samböndum, svo sem við Lia gård, kyrrðarsetrið stóra í Austurdal í Noregi (liagard.no), og samtökin Spiritual Directors in Europe (SDE, sd-europe.wildapricot.org). Hér er svokölluð andleg fylgd í forgrunni (Spiritual Direction, Spiritual Companionship) og einnig biblíuleg íhugun með áherslu á virkjun ímyndunaraflsins. Ræturnar má helst rekja til 16. aldar Spánverjans Ignatiusar Loyola. Um þessa hefð og fleira má lesa í bókinni: Náðargjafir andlegrar greiningar … (Bókakaffið í Fellabæ og bókasöfn).

Mislangar kyrrðardvalir eru þekktar hérlendis frá því á níunda áratug 20. aldar en elsta samfellda hefð þeirra er Kyrrðardagar kvenna (áður Systradagar).