Kirkjulegar sumarbúðir hafa verið á Eiðum síðan sumarið 1968. Framan af árum í húsnæði barnaskólans en frá 1992 í byggingu Kirkjumiðstöðvarinnar við Eiðavatn sem var vígð 25. ágúst 1991. Kirkjumiðstöð Austurlands er sjálfseignarstofnun á vegum safnaðanna á Austurlandi. Margir eiga góðar minningar úr sumarbúðastarfinu og margháttuð reynsla af slíkri starfsemi hefur orðið til á liðlega 40 árum.
Eiðar eru fornt höfuðból og kirkjustaður og frá 1883 þekkt sem skólasetur. Prestafélag Austurlands hafði forgöngu um sameiginlega, kirkjulega starfsemi á Eiðum. Fyrst fermingarbarnamót frá 1959 og svo, frá 1968, sumarbúðir fyrir börn og fleiri hópa. Sumarbúðirnar voru framan af árum í leiguhúsnæði í barnaskólanum á Eiðum.
Á Jónsmessu 1976 var tekin fyrsta skóflustungan að byggingum fyrir sumarbúðir og aðra kirkjulega starfsemi við Eiðavatn. Þá strax var talað um Kirkjumiðstöð Austurlands. Uppbyggingin við Eiðavatn var fram til 1985 undir forræði Prestafélags Austurlands en leitað var til ýmissa aðila eftir fjárstuðningi og annarri aðstoð. Eðlilegt þótti að söfnuðurnir yrðu formlega aðilar að þessari starfsemi og því var komið á fót sjálfseignarstofnuninni Kirkjumiðstöð Austurlands en skipulagsskrá hennar var formlega staðfest 10. júní 1985.
Kirkjumiðstöð Austurlands er á vegum safnaðanna á Austurlandi og skipar Austurlandsprófastsdæmi á héraðsfundi fjóra fulltrúa í stjórn stofnunarinnar og Prestafélag Austurlands skipar svo fimmta stjórnarfulltrúann. Kirkjumiðstöð Austurlands var vígð 25. ágúst 1991 og sumarbúðarekstur hófst sumarið eftir svo þetta er 11 sumarið sem sumarbúðir eru í þessu húsnæði við Eiðavatn.
Húsnæði Kirkjumiðstöðvarinnar (það sem nú hefur verið byggt) er um 700 m2 .Í svefnskála eru 10 herbergi og hvert þeirra með 4 rúmum (kojum). Tengibygging (með herbergi, skrifstofu og snyrtingu) með aðalanddyri er milli hans og þriðja skálans sem, auk rúmgóðs og vel búins eldhúss, hýsir stóran sal og nokkur smærri herbergi fyrir starfsfólk. Öll þessi húsakynni eru á einum gólffleti og mjög greiðfært innanhúss t.d. fyrir fólk í hjólastól. Salnum hefur verið tvískipt við notkun, í borðsal og samkomusal eða eins konar kapellu.
Allmargir flokkar fatlaðra hafa dvalið í Kirkjumiðstöðinni og öll undanfarin sumur hafa dvalið þar hópar aldraðra. Það eru ekki aðeins byggingarnar sem henta slíkum hópum sérlega vel heldur ná stígar með slitlagi alveg niður að vatni og inn á þróttavöllinn.
Kirkjumiðstöðin er við austanvert Eiðavatn sem er nokkuð í norður frá meginhúsaþyrpingunni á Eiðum. Fjarlægt frá Egilsstöðum er um 18 km. Allmikið hefur verið gróðursett af trjáplöntum á þessu svæði og hin síðari ár er sjálfsprottinn birkiskógur einnig að vaxa þarna úr grasi með friðun landsins. Utan sumarbúðatímans hafa verið haldnir ýmsir kirkjulegir fundir og námskeið í Kirkjumiðstöðinni.
Sóknarprestar á Eiðum hafa gegnt mikilvægu hlutverki varðandi umrædda kirkjulega starfsemi og uppbygginguna við Eiðavatn. Fyrst sr. Einar Þór Þorsteinsson (og raunar öll fjölskylda hans) sem prestur var á Eiðum frá 1956-1999.