Egilsstaðaprestakall
Egilsstaðaprestakall nær yfir sóknir Þjóðkirkjunnar í Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshreppi, Seyðisfjarðarkaupstað og Borgarfjarðarhreppi. Sóknirnar eru alls 14. Hver sókn hefur sína sóknarkirkju og sóknarnefnd sem annast fjárstjórn hennar, umsjón og gæslu eigna og hefur forgöngu um kirkjulegt starf í sókninni ásamt prestunum í prestakallinu.
Egilsstaðaprestakall varð til við sameiningu fjögurra prestakalla á Héraði, Borgarfirði og Seyðisfirði. Sameiningin var ákveðin á Kirkjuþingi haustið 2011 og hófst þá þegar með sameiningu Eiðaprestakalls og Vallanesprestakalls. Seyðisfjarðarprestakall bættist við árið 2013 og Valþjófsstaðarprestakall árið 2014. Um leið voru prestssetrin á Eiðum og Valþjófsstað aflögð, en prestssetur og búsetuskylda fylgir prestsembættinu á Seyðisfirði.
Fyrsti sóknarprestur Egilsstaðaprestakalls var sr. Jóhanna I. Sigmarsdóttir (2011-2014). Við sameininguna var prestum á svæðinu fækkað úr fjórum í þrjá. Prestar Egilsstaðaprestakalls eru:
- Þorgeir Arason, sóknarprestur
- Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur
- Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur
Prestarnir þrír sinna öllum sóknarbörnum um prestsþjónustu. Margir nýta sér t.d. viðtalstíma prestanna til stuðnings og sálgæslu, og er sú þjónusta ávallt veitt að kostnaðarlausu.
Upplýsingar um helgihald Egilsstaðaprestakalls er að finna á vefsíðunni egilsstadaprestakall.com.