Hofsprestakall

Í Hofsprestakalli eru þrjár sóknir sem ná yfir Vopnafjörð og Bakkafjörð. Þær eru Vopnafjarðar-, Hofs- og Skeggjastaðasókn. Fólksfjöldi í prestakallinu er um 700.

Prestakallið í gegnum aldirnar

Í Vopnafirði voru á öldum áður tvö prestaköll, Refsstaðarprestakall og Hofsprestakall. Í Refsstaðarprestakalli var ein samnefnd sókn. Hún náði yfir þá bæi sem voru austan við Hofsá, frá Fagradal, sem var ysti bær ,,út til dala”, að Þverá í Hofsárdal. Litlar heimildir eru til um kirkjuna á Refsstað en hún stóð á svokölluðum Gamlabæjarhóli, en þar var einnig kirkjugarður sem var lengur í notkun en kirkjan sjálf. Árið Refsstaðaprestakall var lagt niður árið 1812 en þá hafði kirkjunni á Refsstað verið þjónað af Hofspresti frá því árið 1786.

Sú kirkja sem nú stendur á Hofi var byggð árið 1901 en þar stóð áður torfkirkja frá miðöldum. Talið er að fyrsta kirkjan á Hofi hafi verið byggð stuttu eftir kristnitöku.

Vopnafjarðarsókn varð til árið 1899 þegar mikil fólksfjölgun hafði átt sér stað í þorpinu á Vopnafirði, Vopnafjarðarkirkja var byggð 1903. Hin nýja sókn náði yfir kauptúnið og ytri hluta sveitarinnar, þannig að Refsstaður, Fell, Vakursstaðir og Þorvaldsstaðir voru ystu bæir í Hofssókn, en bæir utan þeirra tilheyrðu Vopnafjarðarsókn

Í 74 ár hélst sóknarskiptingin þannig að ytri hluti sveitarinnar tilheyrði Vopnafjarðarsókn en innri hlutinn tilheyrði Hofssókn en það breyttist árið 1973 þegar öll sveitin, að Leiðarhöfn undanskilinni, var lögð undir Hofssókn.

Árið 2017 var það síðan samþykkt á Kirkjuþingi að Skeggjastaðasókn skyldi tilheyra Hofsprestakalli. Skeggjastaðaprestakall hafði þá sameinast Langanesprestakalli nokkrum árum áður en þótti eðlilegra að sóknin tilheyrði Hofsprestakalli þar sem Skeggjastaðasókn tiheyrir Austurlandsprófastsdæmi hinu nýja, en ekki Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi líkt og Langanesprestakall.Skeggjastaðasókn liggur á milli Brekknaheiðar í norðri og Sandvíkurheiðar í austri með þéttbýliskjarna í Höfn.

Heimildir:

Heimildir: Hjörleifur Guttormsson, ,,Vopnafjörður”, Norðausturland, Árbók Ferðafélag Íslands, Reykjavík: Ferðafélag Íslands, 2013, bls. 6-112

Sveinn Níelsson, prestatal og prófasta á Íslandi, 2. útg. Með viðaukum og breytingum eftir Hannes Þorsteinsson, Björn Magnússon sá um útgáfuna, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1950.

Þjóðskjalasafn Íslands (ÞÍ) Visitasíubækur Refsstaðarsóknar 1785-1812.